Samstarf/samráð íslensku bankanna orðið mjög augljóst

Fyrir ári síðan var mikið í umræðunni svokölluð krónubréf þ.e.a.s. erlendir spákaupmenn gáfu út skuldabréf í íslenskum krónum til að fá þá vexti sem hafa verið hér á landi. Vextirnir hér hafa verið í kringum 13% á meðan þeir hafa verið 0,3-4% hjá stærstu þjóðum heims.

En nú þegar þessi krónubréf eru laus til innlausnar þá kemur sér vel að allir þekkja alla í bankageiranum á Íslandi. Bankarnir hafa tekið sig saman og ákveðið að lækka gengi krónunnar til að hagnaður erlendu spákaupmannanna yrði enginn eða jafnvel kæmi út í tapi. Og viti menn, að sjálfsögðu tókst bönkunum það með samstilltu átaki.

En reiknum út innlausn á 1 milljarða krónubréfum sem voru gefin út 14. mars 2007 og eru með gjalddaga 14. mars 2008.

Gengið á evrunni þann 14. mars 2007 er 89,23 þannig að fyrir 11.206.993 € fengust 1.000.000.000 kr.
Vextir eru ca. 13% þannig að eftir árið er upphæðin komin í 1.130.000.000 kr.
Gengið á evrunni þann 14. mars 2008 er 109,16 þannig að fyrir 1.130.000.000 kr fást 10.351.777 €

Þannig að í staðinn fyrir að hagnast um 13% á einu ári eða 1.456.909 € þá hafa erlendu spákaupmennirnir tapað 855.216 € !!!

Bankarnir, allir sem einn, hafa staðið sig gríðarlega vel í að passa upp á okkar agnarsmáa hagkerfi gagnvart erlendum aðilum sem héldu að þeir gætu hagnast vel á litla Íslandi.

En undanfarna daga og vikur hafa allir bankarnir verið að auka gjaldeyrisforða sinn og myndað skort á erlendum gjaldeyri sem orsakar lækkun krónunnar. Einnig hafa verið gríðarleg viðskipti með gjaldeyri milli bankanna þá daga sem krónan hefur lækkað mest. Þannig að það er orðið alveg ljóst að samstarf og samráð milli íslensku bankanna er gríðarlega mikið og ekki síst gríðarlega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga.

En allt tal um veika krónu og hrakspár í efnahagslífinu eiga ekki við nein rök að styðjast þegar atburðir síðustu vikna eru skoðaðir. Krónan á eftir að rétta úr sér með sumrinu og efnahagurinn (og hávaxtastefnan) á eftir að blómstra sem aldrei fyrr í haust.


Borgar - stjórn ehf

Ég á hlutabréf í fyrirtæki sem hefur verið mikið í fréttum síðustu daga. Það var 117.721 hluthafi í fyrirtækinu þann 1. desember síðastliðinn og fjölgar með hverju árinu.

Til að halda fyrirtækinu gangandi þá borga flestir hluthafar 13.03% af launum sínum til fyrirtækisins. En fyrirtækið á líka töluvert landsvæði og allir þeir sem eiga fasteign á því landssvæði greiða 0,225% af fasteignamati eignanna til fyrirtækisins.

Í staðinn sér fyrirtækið um ákveðna þjónustu fyrir alla hluthafana eins og að búa til götur heim til hluthafanna, taka sorp frá íbúum, safna sama skólpi frá fasteignum og sjá um skólagöngu barna hluthafanna svo fátt eitt sé nefnt.

Á fjögurra ára fresti er kosin 15 manna stjórn fyrirtækisins og verða þeir sem eru kjörnir að finna út hvernig þeir vilja starfa saman þannig að fyrirtækið haldist gangandi. Reyndar er ekkert endilega gerð krafa um að fyrirtækið skili hagnaði því ef það er rekið með tapi þá má bara láta hluthafana greiða meira næsta árið.

Moldviðri síðustu daga hefur því miður dregið umræðuna frá því hversu mikið meira hluthafar þurfa að greiða til fyrirtækisins á þessu ári en því síðasta, auðvitað ætti að reka þetta fyrirtæki sem best, með sem minnst útgjöld til að hluthafarnir hagnist sem mest en því er ekki að skipta. Á meðan það er ekki aðalatriðið þá skiptir engu máli hvernig innbyrgðis samskiptum er háttað milli þessara 15 stjórnarmanna í fyrirtækinu.


Einföld fjármálaformúla

Ég ákvað að eyða peningum í bók um mikilvægi fjármálaskipulags. Grunnhugtakið er mjög einfalt og skiptist í þrennt:

20% af tekjunum á að fara í sparnað. Sparnaðinn er svo hægt að nota í íbúðarkaup, bílakaup, húsgagnakaup og kaup á hlutum sem kosta meira en 30% af laununum þínum. Þessi 20% má líka nota til að borga upp skuldir s.s. yfirdráttar- og kreditkortaskuldir.

50% á að fara í nauðsynjar. Það er afborganir af húsnæðislánum/húsaleigu, fasteignagjöld, rafmagn og hiti, leikskólagjöld, matur (fyrir utan sælgæti), tryggingar (eingöngu grunntryggingar), bensín.

30% á að fara í ALLT annað en hér er á undan talið. Hér lendir m.a. (ekki endanleg upptalning), bílalán, sælgæti, líftrygging, klipping, föt, geisladiskar, dvd, videóleiga, áfengi, bjór, fótbólti, gæludýr, gervineglur, nudd, tölvudót, sjónvarp, sjónvarpsáskrift, tímarit, dagblaðaáskriftir, veitingastaðir o.fl. o. fl. o.fl.

Skoðaðu útgjöldin hjá þér í einn mánuð og athugaðu hversu nærri (eða fjærri) þú ert þessu útgjaldajafnvægi. Því fjær þessari skiptingu því meiri líkur eru á því að þú lendir í fjármálavandræðum.

Það er líka mjög hollt að skoða hversu mikið þú ert að borga í vexti, seðilgjöld, vanskilagjöld og dráttarvexti á ári af öllum lánum sem þú þarft að borga. Niðurstaðan á eftir að koma þér mjög á óvart og varpa ljósi á methagnað banka og sparisjóða síðustu ára.


Undur tölvusamskipta

Í dag fékk ég sendan tölvupóst sem var hljómaði eitthvað á þessa leið: "Ef þú hefur ennþá áhuga þá er þetta hægt núna. Hafðirðu hugsað þér að skreppa til Stokkhólms eftir tvær vikur?"

Þetta er svo sem ekkert merkilegur tölvupóstur nema að því leiti að þetta er svar við tölvupósti sem ég sendi fyrir tveim árum. Þá voru aðstæður allt aðrar og sennilega sendi ég tölvupóstinn tveim vikum eftir að ég var síðast í Stokkhólmi. En svona er þetta, það virðist vera farið að gilda nákvæmlega það sama um tölvupóst og hefðbundin bréfapóst, sum bréf eru bara lengur á leiðinni en önnur.


Lífur eða ÓLífur?

Ég er mikið að spá þessa dagana, hvers vegna í ósköpunum er bara hægt að kaupa ólífur út í búð? Mig langar ekkert í þær, en hvar fær maður eiginlega lífur?

Má þetta virkilega?

Ég get nú bara ekki orða bundist. Aldrei segir enginn mér neitt. Var að horfa á auglýsingarnar og í einni auglýsingunni er kennari að drekka rauðvín í miðjum kennslutíma og svo í annarri auglýsingu var sýnt þegar fólk var að borða jólamatinn sinn inn í miðju IKEA.

Þetta er eitthvað sem enginn var búinn að segja mér að væri í boði. Mig hefur alltaf langað að fá mér eitt rauðvínsglas í vinnunni og fyrst það má í auglýsingunum þá hlýtur það að mega allsstaðar annarsstaðar. Og mig hefur alltaf langað að mæta í IKEA og prufa að hafa matarboð við ýmis borðsstofuborð sem eru til sölu þar. Hvernig á maður að vita hvaða borð hentar nema að fá að prufa þau með því að halda almennilegt matarboð.

Þannig að næsta föstudagskvöld verður öllum vinum mínum boðið í mat, mæting kl. 19.00 í Kauptúni 4, 2. hæð - sjöundi bás til vinstri. Ég verð örugglega með afgang af rauðvíninu sem ég ætla að drekka í vinnunni en ef þið viljið eitthvað annað þá takið þið það með ykkur. Sjáumst!


Hvers virði ertu?

Nýverið tóku tvær bankastofnanir upp á þeirri nýjung að bjóða upp á innlánsreikninga þar sem vextir eru greiddir út mánaðarlega. Persónulega finnst mér þetta vera löngu tímabært enda hefur verið mjög einkennilegt að yfirdráttarvextir eru innheimtir mánaðarlega en innlánsvextir greiddir árlega. En þetta er bara eitt atriði af þúsund sem mér finnst halla all mikið á almenning gagnvart lánastofnunum.

En snúum okkur að því sniðuga við þessa nýju innlánsreikninga. Núna er hægt að reikna út hvers virði þú ert samkvæmt nýjustu útreikningum.

Meðalútborguð laun síðustu þriggja mánaða:
100.000 kr.
Stýrivextir Seðlabankans:
13,75%
Fjármagnstekjuskattur:
10%

Virði þitt er samkvæmt þessum forsendum:
100.000 / (0,1375 * (1 - 0,1) / 12) =
100.000 / (0,1375 * 0,9 / 12) =
100.000 / 0,0103125 = 9.696.969 kr.

Þetta segir þú ert nákvæmlega 9.696.969 króna virði því af þessari upphæð fengirðu 100.000 kr. greiddar út í vexti á hverjum mánuði um aldur og ævi*. 

* Nema stýrivextir Seðlabankans breytist.


Dónalegir brandarar, á að hlægja eða þegja?

Hver kannast ekki við það að vera staddur í veislu og einhverjum veislugesti dettur í hug að segja virkilega dónalegan brandara. Er það kurteisi að hlægja að brandaranum eða er það óviðeigandi? Þetta er hreinlega einum of erfitt að finna hvar skilin liggja þarna á milli.

Heyrt í ónefndum laufabrauðsbakstri: "Heyrðu, hafiði heyrt þennan? Það var nunna sem fór til læknis og ... bíb ... bíb ... bíb ... og svo sagði læknirinn, þetta eru ekki ... bíb ...  þetta eru ... bíb ... !!!".

Góður brandari eða lélegur, viðeigandi eða óviðeigandi - það er best að hlægja alltaf. En þeir brandarar sem eru lélegir eða óviðeigandi verða aldrei endursagðir!


Hvaða munur er á góðri konu og slæmri konu?

Það er erfitt að finna þann mann sem ekki hefur yfir einhverju að kvarta yfir konunni sinni. En af hverju er svona mikið af slæmum konum til? Svarið við því er mjög flókið þannig að við skulum breyta aðeins spurningunni. Af hverju er svona lítið til af góðum konum? Og af hverju er svona erfitt að finna menn sem tala vel um konurnar sínar?

Í morgunkaffinu í ónefndri bankastofnun: "Vitiði hvað konan mín gerði fyrir mig í gær? Þegar ég kom heim úr vinnunni þá hafði hafði þessi elska þvegið fötin af okkur og straujað skyrturnar mínar, og vitiði hvað? Ekki nóg með það heldur bauðst hún til að elda matinn á meðan ég hjálpaði krökkunum með heimanámið! Þegar krakkarnir voru sofnaðir þá hellti hún upp á gott kaffi fyrir okkur og við laumuðumst í jólakonfektið. Þið hefðuð átt að sjá hvað hún ljómaði þegar ég nuddaði tásurnar hennar yfir tíufréttunum."

Svarið við spurningunni er í raun sáraeinfalt. "Slæma" konan á tillitslausan mann sem gengur að öllu sem sjálfsögðum hlut. "Góða" konan á tillitssaman og hjálpfúsan mann sem veit að ekkert gerist af sjálfu sér.


Varúð, kerfisfræðingur!

Þegar ég var spurður um slóðina á bloggsíðuna mína um daginn og svarið var að ég væri ekki með bloggsíðu þá fékk ég bara blákaldann sannleikann í hausinn, "EKKERT BLOGG, en ég hélt að þú værir kerfisfræðingur??".

En hvað á maður að gera þegar það eru bara 24 klst í sólarhringnum og yfir 80% er eytt fyrir framan tölvu, hvenær á maður þá að hafa tíma til að blogga? Lausnin er svo einföld að mér skyldi ekki hafa dottið það í hug fyrr. Hverju munar á 80% og 81%? Jú, heilu korteri og nú ætla ég að nýta mér það til fullnustu hér á blogginu.


« Fyrri síða

Um bloggið

Þorsteinn Kristinsson

Höfundur

Þorsteinn Kristinsson
Þorsteinn Kristinsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Fylgni heimsmarkaðsverðs og verð á dælu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband