Færsluflokkur: Bloggar

Álagning olíufélaganna hefur hækkað um 30 kr. á þrem mánuðum

Fylgni heimsmarkaðsverðs og verð á dæluÞað er athyglisvert að skoða verð á díselolíu hjá olíufélögunum og verði á olíu á heimsmarkaði. Eins og sjá má þá skila hækkanir sér hratt og örugglega til neytenda en lækkanir skila sér beint í vasa eigenda olíufélaganna. Fylgnin í vor frá áramótum var nokkuð nærri lagi fram til 1. maí en eftir það hafa lækkanir ekki skilað sér nema að mjög takmörkuðu leiti.

Eflaust geta olíufélögin borið fyrir sig hinum ýmsu afsökunum fyrir hækkandi álagningu eins og til dæmis hækkunum vegna launakostnaðar í kjölfar saminganna í vor en hvaða afsökun hefur þá Atlantsolía sem hefur ekki eina einustu mönnuðu bensínstöð?

Ef olía kostar 97 dollara á heimsmarkaði 1. febrúar og lítrinn af olíu á dælu er þá 213 kr. hvernig er þá hægt að réttlæta það að lítrinn kosti 242 kr þegar heimsmarkaðsverðið lækkar niður í 96 dollara 30. júlí?


Olíuhreinsistöð í Arnarfirði - NEI takk!

Ég er mjög mótfallinn þeirri hugmynd að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðunum. Það er mjög mikið af atvinnutækifærum á Vestfjörðunum sem felast að miklu leiti í náttúrunni sem er enn sem komið er tiltölulega óspillt. Að reisa eitt stykki olíuhreinsunarstöð á þessum stað kemur til með að takmarka mjög þá möguleika á atvinnusköpun sem er hægt að fara út í á næstu árum og áratugum. Olíuhreinsunarstöðin skapar einhverja tugi starfa en lokar á hundruði ef ekki þúsundir starfa sem felast m.a. í ferðaþjónustu og léttum iðnaði sem er mjög auðvelt að sjá fyrir sér t.d. í Arnarfirðinum sjálfum. Mengun frá olíuhreinsunarstöðvum er staðreynd, olíuslys á þessum stað yrði skaði sem tæki heilan mannsaldur að bæta ef skaðinn yrði einhverntímann bættur að fullu.

Þeir sem koma til með að vinna í olíuhreinsunarstöðinni, bæði að uppbyggingu og rekstri verða í meirihluta aðflutt vinnuafl. Skýrasta dæmið er Kárahnjúkar, hversu margir Austfirðingar unnu að uppbyggingunni þar? Og núna þegar virkjunarframkvæmdir eru að mestu yfirstaðnar þá stefnir allt  á niðurleið aftur í atvinnumálum Austfirðinga nema fyrir þá sem vinna í álverinu og fjölskyldur þeirra.

Vandamálið varðandi atvinnumál á Vestfjörðunum er fyrst og fremst lélegar samgöngur sem takmarka alla uppbyggingu á atvinnuvegum og jafnframt skortur á fólki, það þarf meiri fólksfjölda til að ná upp hærra atvinnustigi og meiri fjölbreytni.

Skammtímasjónarmið eru allt of ráðandi í núverandi iðnaðarstefnu og enginn sem horfir á heildarmyndina, er virkilega enginn ráðamaður sem ber virðingu fyrir landi og þjóð?


Einföld fjármálaformúla

Ég ákvað að eyða peningum í bók um mikilvægi fjármálaskipulags. Grunnhugtakið er mjög einfalt og skiptist í þrennt:

20% af tekjunum á að fara í sparnað. Sparnaðinn er svo hægt að nota í íbúðarkaup, bílakaup, húsgagnakaup og kaup á hlutum sem kosta meira en 30% af laununum þínum. Þessi 20% má líka nota til að borga upp skuldir s.s. yfirdráttar- og kreditkortaskuldir.

50% á að fara í nauðsynjar. Það er afborganir af húsnæðislánum/húsaleigu, fasteignagjöld, rafmagn og hiti, leikskólagjöld, matur (fyrir utan sælgæti), tryggingar (eingöngu grunntryggingar), bensín.

30% á að fara í ALLT annað en hér er á undan talið. Hér lendir m.a. (ekki endanleg upptalning), bílalán, sælgæti, líftrygging, klipping, föt, geisladiskar, dvd, videóleiga, áfengi, bjór, fótbólti, gæludýr, gervineglur, nudd, tölvudót, sjónvarp, sjónvarpsáskrift, tímarit, dagblaðaáskriftir, veitingastaðir o.fl. o. fl. o.fl.

Skoðaðu útgjöldin hjá þér í einn mánuð og athugaðu hversu nærri (eða fjærri) þú ert þessu útgjaldajafnvægi. Því fjær þessari skiptingu því meiri líkur eru á því að þú lendir í fjármálavandræðum.

Það er líka mjög hollt að skoða hversu mikið þú ert að borga í vexti, seðilgjöld, vanskilagjöld og dráttarvexti á ári af öllum lánum sem þú þarft að borga. Niðurstaðan á eftir að koma þér mjög á óvart og varpa ljósi á methagnað banka og sparisjóða síðustu ára.


Undur tölvusamskipta

Í dag fékk ég sendan tölvupóst sem var hljómaði eitthvað á þessa leið: "Ef þú hefur ennþá áhuga þá er þetta hægt núna. Hafðirðu hugsað þér að skreppa til Stokkhólms eftir tvær vikur?"

Þetta er svo sem ekkert merkilegur tölvupóstur nema að því leiti að þetta er svar við tölvupósti sem ég sendi fyrir tveim árum. Þá voru aðstæður allt aðrar og sennilega sendi ég tölvupóstinn tveim vikum eftir að ég var síðast í Stokkhólmi. En svona er þetta, það virðist vera farið að gilda nákvæmlega það sama um tölvupóst og hefðbundin bréfapóst, sum bréf eru bara lengur á leiðinni en önnur.


Lífur eða ÓLífur?

Ég er mikið að spá þessa dagana, hvers vegna í ósköpunum er bara hægt að kaupa ólífur út í búð? Mig langar ekkert í þær, en hvar fær maður eiginlega lífur?

Dónalegir brandarar, á að hlægja eða þegja?

Hver kannast ekki við það að vera staddur í veislu og einhverjum veislugesti dettur í hug að segja virkilega dónalegan brandara. Er það kurteisi að hlægja að brandaranum eða er það óviðeigandi? Þetta er hreinlega einum of erfitt að finna hvar skilin liggja þarna á milli.

Heyrt í ónefndum laufabrauðsbakstri: "Heyrðu, hafiði heyrt þennan? Það var nunna sem fór til læknis og ... bíb ... bíb ... bíb ... og svo sagði læknirinn, þetta eru ekki ... bíb ...  þetta eru ... bíb ... !!!".

Góður brandari eða lélegur, viðeigandi eða óviðeigandi - það er best að hlægja alltaf. En þeir brandarar sem eru lélegir eða óviðeigandi verða aldrei endursagðir!


Hvaða munur er á góðri konu og slæmri konu?

Það er erfitt að finna þann mann sem ekki hefur yfir einhverju að kvarta yfir konunni sinni. En af hverju er svona mikið af slæmum konum til? Svarið við því er mjög flókið þannig að við skulum breyta aðeins spurningunni. Af hverju er svona lítið til af góðum konum? Og af hverju er svona erfitt að finna menn sem tala vel um konurnar sínar?

Í morgunkaffinu í ónefndri bankastofnun: "Vitiði hvað konan mín gerði fyrir mig í gær? Þegar ég kom heim úr vinnunni þá hafði hafði þessi elska þvegið fötin af okkur og straujað skyrturnar mínar, og vitiði hvað? Ekki nóg með það heldur bauðst hún til að elda matinn á meðan ég hjálpaði krökkunum með heimanámið! Þegar krakkarnir voru sofnaðir þá hellti hún upp á gott kaffi fyrir okkur og við laumuðumst í jólakonfektið. Þið hefðuð átt að sjá hvað hún ljómaði þegar ég nuddaði tásurnar hennar yfir tíufréttunum."

Svarið við spurningunni er í raun sáraeinfalt. "Slæma" konan á tillitslausan mann sem gengur að öllu sem sjálfsögðum hlut. "Góða" konan á tillitssaman og hjálpfúsan mann sem veit að ekkert gerist af sjálfu sér.


Varúð, kerfisfræðingur!

Þegar ég var spurður um slóðina á bloggsíðuna mína um daginn og svarið var að ég væri ekki með bloggsíðu þá fékk ég bara blákaldann sannleikann í hausinn, "EKKERT BLOGG, en ég hélt að þú værir kerfisfræðingur??".

En hvað á maður að gera þegar það eru bara 24 klst í sólarhringnum og yfir 80% er eytt fyrir framan tölvu, hvenær á maður þá að hafa tíma til að blogga? Lausnin er svo einföld að mér skyldi ekki hafa dottið það í hug fyrr. Hverju munar á 80% og 81%? Jú, heilu korteri og nú ætla ég að nýta mér það til fullnustu hér á blogginu.


Um bloggið

Þorsteinn Kristinsson

Höfundur

Þorsteinn Kristinsson
Þorsteinn Kristinsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Fylgni heimsmarkaðsverðs og verð á dælu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband